leiðtogahæfileikar â færni í mannlegum samskiptum â frumkvæði â skipulagshæfileikar
17.12.2012 | 21:21
Eftirfarandi frasar ganga í gegnum auglýsingar eins og rauður þráður: leiðtogahæfileikar færni í mannlegum samskiptum frumkvæði skipulagshæfileikar metnaður sjálfstæði og öguð vinnubrögð - Mjög góð skipulags- og samskiptahæfni - Fagmennska, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum - Sveigjanleiki, jákvætt viðmót, færni og vilji til að tileinka sér nýja þekkingu og vinnubrögð - Þjónustulund og lipurð í samskiptum Metnaður til að takast á við krefjandi verkefni í spennandi umhverfi - Metnaður og heiðarleiki
Ráðningarfyrirtæki eiga svona upptalninu á blaði og nota þegar samdar eru atvinnuauglýsingar. Ekki skiptir máli eftir hverskonar starfsmanni er auglýst. Sömu orðin og orðasamböndin eru notuð aftur og aftur.
Þegar sérfræðingar ráðningarfyrirtækja vilja hafa textann alveg sérstaklega magnaðan grípa þeir til þess ráðs að lýsa sjálfu starfinu, sem er ekki óvitlaust, því þegar öllu er á botninn hvolft, þá skiptir það mestu máli. Eigið mat á eigin hæfileikum eða færni í mannlegum samskiptum er í flestum tilvikum haldlítil draumsýn.
Bert fólk og veitingastaðir
28.2.2011 | 22:50
Hvernig ber að heilla fólk og fá það til að heimsækja ákveðna veitingastaði? Netið skiptir vissulega máli en þegar ferðamaðurinn er kominn á hótelherbergi er fátt eins gott og að þar liggi bæklingur með öllum nauðsynlegum upplýsingum. Yfirleitt hefur ferðafólk nægan tíma og vill bera saman það sem er í boði.
Forsíðan sem kom, sá og sigraði
Ég naut þess um daginn að fara á þægilegt sveitahótel á Suðurlandi. Að hætti forvitins ferðamanns fór ég samviskusamlega í gegnum bæklinga, sem ég fann í herberginu. Þarna kenndi ýmissa grasa en bæklingurinn Dining out toppaði flest sem ég hef séð um dagana. Auglýsingasíðurnar voru ágætar en það var forsíðan sem kom, sá og sigraði.
Hvað er rétt að setja framan á bækling um veitingastaði? Flestir munu nefna mat og fallegt, rómantískt umhverfi. En sumir vilja vera öðruvísi og svo var um útgefanda umrædds bæklings. Hann varð sér úti um mynd af ungu pari. Á forsíðunni sést það nakið niður fyrir nafla í áköfum kossaleik. Ljóst hár stúlkunnar liðast niður líkama hennar, yfir brjóstin og hylur þau mátulega. Á hvítum borða fyrir neðan unga fólkið er rautt epli á hvítum disk. Myndin er ættuð úr myndabankanum Shutterstock en þar er að finna þúsundir og aftur þúsundir mynda sem hefðu betur hæft efni bæklingsins.
Forboðnir ávextir, Mjallhvít, Adam og Eva
Annars er það útaf fyrir sig merkilegt að fara í svona myndabanka en eyða ekki nokkrum krónum í að taka myndir af íslenskum mat. Nóg er til af frambærilegum ljósmyndurum á Íslandi - og þegar verið er að kynna til sögunnar íslenska veitingastaði er ekki galin hugmynd að sýna íslenskan mat.
Trúlega telur útgefandinn snilld sína koma fram í því að fá mynd af ungu fólki í keleríi en sleppa klassískri matarmynd. Hvernig honum datt í hug að mynda epli og skella því fyrir neðan krakkana er önnur saga og flóknari. Rétt hugsanlega hefur honum dottið í hug sagan um Mjallhvíti en svo getur líka verið að honum finnist epli góð. Má vera að hugsunin sé enn dýpri og hann hafi verið að daðra við forboðna ávexti, Adam og Evu.
----
Vel má vera að ég sé gamaldags og að það sé eðlilegt að hafa bert fólk framan á bæklingi um íslenska veitingastaði. Ef svo er, þá vil ég vera gamaldags. Telji útgefandinn að þetta sé eðlilegt, sniðugt og frumlegt er hann einfaldlega á öðru astralplani en ég.
Hvernig ætli útgefandinn hefði hannað bækling fyrir sólbaðsstofu eða sundlaug? Maður getur látið sér detta ýmislegt í hug en miðað við jafn saklaust efni og íslensk veitingahús, þá efast ég ekki um að það hefði sést meira af parinu og að dýptin í frumlegheitunum hefði verið ómælanleg.
Mannauðsstjórn og fræðsluhönnun...
19.2.2011 | 09:06
Atvinnuauglýsingar geta verið fyndnar. Drepskemmtilegar. Oft fá fyrirtæki sérfræðinga til að annast ráðningu nýrra starfsmanna og það eru einmitt þessir sérfræðingar sem sjá um gamansemina. Venjulegt fólk býr ekki yfir þeim hæfileika að setja saman góða atvinnuauglýsingu. Það leynist rithöfundur í sumum þessara sérfræðinga enda er þeim hæfileika á stundum beitt óspart.
Ég á það til að lesa atvinnuauglýsingar en þess má geta að ég les líka smáauglýsingar og þá ekki síður raðauglýsingar, sem segja gömlum blaðamönnum á stundum hvert skal halda í leit að góðu efni. Fyrir nokkrum árum tók ég eftir orðinu mannauðsstjórnun þegar það hóf innrás sína í atvinnuauglýsingarnar og steindrap starfsmannastjórann.
Innleiðing mannauðsstjórnar
Ekki er langt síðan auglýst var eftir mannauðsráðgjafa til að vinna með stofnunum að innleiðingu mannauðsstjórnar á vinnustað. Um er að ræða mannauðsráðgjöf og fræðsluhönnun, sem miðar að því að efla störf, starfsumhverfi, starfsþróunarmöguleika og starfsánægju. Leitað er að drífandi einstaklingi sem hefur í senn fagþekkingu og starfsreynslu á sviði mannauðseflingar. Starfið er tengt sérstökum stuðningsaðgerðum við stofnanir og byggir framtíð þess á árangri. Þess má geta að gert er ráð fyrir að umsækjendur séu með menntun í mannauðsfræðum.
Fræðsluhönnun er snilld
Og hvað var nú fyndið við þennan texta? Ja, það er nú til dæmis sú snilld að búa til orðið fræðsluhönnun. Fljótt á litið má hugsa sér að fræðsluhönnun sé sá verknaður að skrifa og hanna kennsluefni, en hugur segir mér að verkefnið sé eitthvað annað. Mannauðsefling? Hvað í heiminum er það? Hugsanlega á nýi starfsmaðurinn að reyna að laga starfsanda í fyrirtækjum og stofnunum en ef hann beitir þessu orði í því sambandi verður honum ekki mikið ágengt. Meðaljóninn fær verk þegar einhver segir honum að nú sé lag að hnoða í fólk mannauðeflingu og fara svo í fræðsluhönnun eftir mat.
Það skal viðurkennt að ekki er nóg að auglýsa eftir einstaklingi með fullu viti og við sæmilega heilsu. Auðvitað þarf að telja upp verkefnin en það á ekki að gera að á uppskrúfaðan hátt. Menntun manna er ekki mæld í því hvað þeir eru duglegir að flækja einföld verk. Fólk sem starfar á mannauðssviði þarf að skilja og skynja þarfir og væntingar samstarfsmanna, geta talað skiljanlegt mál og eiga til þolinmæði í kílóavís. Ef starfsmannahaldið sendir frá sér texta að hætti þess sem ritaði auglýsinguna, sem varð tilefni þessara orða, getur það bókað að það les ekki nokkur sála textann frá upphafi til enda.
Mannauðsefling
Auðvitað er gott að það hafi víðtæka starfsreynslu en ekkert endilega á sviði mannauðseflingar enda er mér ekki alveg ljóst hvert sérfræðingurinn með rithöfundarneistann er að fara. En hitt veit ég að andlegir jafningjar hans hafa sótt um starfið og einhver þeirra er nú fyrir framan tölvuskjáinn sinn önnum kafinn við kafla um mannauðseflingu. Textinn verður án efa ræddur á nokkrum, löngum fundum og ef heppnin er með verður boðað til ráðstefnu þar sem mannauðsráðgjafinn situr sem fulltrúi og jafnvel fundarstjóri. Ef ráðstefnan heppnast verður til rit sem aldrei verður lesið.
Starfsmaður sem hefur málefni annarra starfsmanna á sinni könnu hefur nóg að gera. Góður einstaklingur á starfsmannasviði getur gert kraftaverk en í öllum bænum dragið úr notkun orðsins mannauðsstjórnun og hinum mannauðs.... og leyfið gamla starfsmannastjóranum að sjá dagsins ljós öðru hvoru.
Af flóknum tækjum
12.2.2011 | 14:46
Í liðinni viku kvartaði kunningi minn undan nýja ritvinnsluforritinu. Um árabil hefur hann - vandræðalaust - skrifað einföld bréf með flóknum texta en nýja forritið reyndist honum erfitt í taumi. Það bauð nefnilega upp á svo ótal margt sem félagi minn hafði ekkert með að gera. Nýja ritvinnslan getur allt. Hún getur teygt og togað stafi, dregið línur inn sjálfvirkt og sett undirlínu með striki undir undirlínur. Hún leiðréttir án þess að vera beðin um það og breytir jafnvel orðum óumbeðið. Þetta er galdaforrit. Gallinn er bara sá að fæstir hafa nokkuð með þessar galdrakúnstir að gera.
Það er eins og framleiðendur tækja og forrita hafi það eitt að leiðarljósi að gera þau flóknari. Tilgangurinn er trúlega sá að gera þau betri, en það er síður en svo víst að notendur séu þeim sammála. Hér má taka bílaútvörp sem dæmi. Fyrir nokkrum árum var enn hægt að fá bílaútvörp sem voru með einn takka sem kveikti og slökkti og annan sem notaður var til að leita að útsendingu. Þetta var sáraeinfalt og bílstjórinn gat stjórnað útvarpinu án fyrirhafnar. Útvarpstæki nútímans eru með fjölmarga, örsmáa takka með smásjárletri. Helst þarf fólk að fara á námskeið til að geta hamið þessi kvikindi. Sá sem þessar línur ritar hefur oftar en ekki gefist upp á svona tækjum og farið tónlistar- og fréttalaus um sveitir landsins.
Margir hafa lýst baráttu sinni við fjarstýringar. Fyrir margt löngu voru til sjónvörp með fáum tökkum. Nú virðast framleiðendur leggja kapp á að hafa þá sem flesta auk þess sem tækin eru með göt fyrir jaðartæki af ýmsum toga. Hvert jaðartæki er að sjálfsögðu með sína eigin fjarstýringu. Í laglegri bastkörfu fyrir framan sjónvarpstækið mitt eru fimm fjarstýringar. Ég ætla ekki að reyna að lýsa baráttu minni við þær en get þó sagt að ég hef æði oft orðið að lúta í lægra haldi. Ég og fjarstýringar eigum einfaldlega ekki samleið.
Ein frægasta barátta mín við þessi litlu rafeindatæki er þegar ég ætlaði að kaupa mér farsíma. Mig skorti síma sem átti að þjóna mér sem sími. Ekki sem myndavél og ekki sem tölva. Bara sem sími. Í mínum huga er sími tæki sem gerir mér kleift að heyra í viðmælanda mínum og hann heyrir í mér. Við skiptumst á orðum og slökkvum svo á tækjum okkar - eða þau gera það sjálf öllu heldur þegar samtali líkur.
Ég fann ekki síma sem var bara sími. Framleiðendur voru búnir að prjóna allskonar möguleika inn í farsímana þannig að símahlutverkið var bara hliðarafurð. Í bræði minni ákvað ég að skrifa félaga Nokia í Finnlandi og skamma hann hressilega. Ég settist niður við tölvuna og skrifaði bréf þar sem ég gerði viðtakanda grein fyrir því, að ég vildi að Nokia framleiddi einfalda síma fyrir einfalt fólk eins og mig. Ég vildi stóra takka og bjartan skjá sem sýndi þær tölur sem ég veldi hverju sinni. Auk þess benti ég honum Nokia á öldruðum fjölgaði stöðugt og að sjón dapraðist með árunum. Það er hægt að græða á þessu fólki, skrifaði ég, og taldi að þar með mundi ég ná að hjarta Nokia.
Ég fann álitlegt netfang í höfuðstöðvum Nokia og sendi bréf til Helsinki. Félagi Nokia svaraði að sjálfsögðu ekki þannig að ég sendi honum sama bréfið aftur og aftur þar til Helsinki fékk leið á mér. Ég fékk ágætt bréf þar sem mér var þakkaður áhuginn á Nokia og nú beið ég spenntur - og hef beðið í nokkur ár. Símarnir frá Nokia - og hinum - verða æ flóknari og flottari. Þeir eru líka hannaðir af kornungu fólki með arnarsjón. Svo allrar sanngirni sé gætt þá sagði kunningi minn mér frá því um daginn að loks væru komnir einfaldir símar frá fyrirtæki sem ég kann ekki deili á. Það þóttu mér góð tíðindi enda fer ég á stúfana eftir helgi í símaleit.
Sá sem sagði að einfaldleiki væri markmið nútímatækninnar hlýtur að hafa dottið á svelli. Notendaviðmót flestra tækja verður flóknara með hverju árinu sem líður enda fylgja þeim hnausþykkir bæklingar á nokkrum tungumálum.
Sjóndaprir og einfaldir allra landa! Stöndum saman og krefjumst breytinga!
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 18:40 | Slóð | Facebook