Af flóknum tækjum
12.2.2011 | 14:46
Í liðinni viku kvartaði kunningi minn undan nýja ritvinnsluforritinu. Um árabil hefur hann - vandræðalaust - skrifað einföld bréf með flóknum texta en nýja forritið reyndist honum erfitt í taumi. Það bauð nefnilega upp á svo ótal margt sem félagi minn hafði ekkert með að gera. Nýja ritvinnslan getur allt. Hún getur teygt og togað stafi, dregið línur inn sjálfvirkt og sett undirlínu með striki undir undirlínur. Hún leiðréttir án þess að vera beðin um það og breytir jafnvel orðum óumbeðið. Þetta er galdaforrit. Gallinn er bara sá að fæstir hafa nokkuð með þessar galdrakúnstir að gera.
Það er eins og framleiðendur tækja og forrita hafi það eitt að leiðarljósi að gera þau flóknari. Tilgangurinn er trúlega sá að gera þau betri, en það er síður en svo víst að notendur séu þeim sammála. Hér má taka bílaútvörp sem dæmi. Fyrir nokkrum árum var enn hægt að fá bílaútvörp sem voru með einn takka sem kveikti og slökkti og annan sem notaður var til að leita að útsendingu. Þetta var sáraeinfalt og bílstjórinn gat stjórnað útvarpinu án fyrirhafnar. Útvarpstæki nútímans eru með fjölmarga, örsmáa takka með smásjárletri. Helst þarf fólk að fara á námskeið til að geta hamið þessi kvikindi. Sá sem þessar línur ritar hefur oftar en ekki gefist upp á svona tækjum og farið tónlistar- og fréttalaus um sveitir landsins.
Margir hafa lýst baráttu sinni við fjarstýringar. Fyrir margt löngu voru til sjónvörp með fáum tökkum. Nú virðast framleiðendur leggja kapp á að hafa þá sem flesta auk þess sem tækin eru með göt fyrir jaðartæki af ýmsum toga. Hvert jaðartæki er að sjálfsögðu með sína eigin fjarstýringu. Í laglegri bastkörfu fyrir framan sjónvarpstækið mitt eru fimm fjarstýringar. Ég ætla ekki að reyna að lýsa baráttu minni við þær en get þó sagt að ég hef æði oft orðið að lúta í lægra haldi. Ég og fjarstýringar eigum einfaldlega ekki samleið.
Ein frægasta barátta mín við þessi litlu rafeindatæki er þegar ég ætlaði að kaupa mér farsíma. Mig skorti síma sem átti að þjóna mér sem sími. Ekki sem myndavél og ekki sem tölva. Bara sem sími. Í mínum huga er sími tæki sem gerir mér kleift að heyra í viðmælanda mínum og hann heyrir í mér. Við skiptumst á orðum og slökkvum svo á tækjum okkar - eða þau gera það sjálf öllu heldur þegar samtali líkur.
Ég fann ekki síma sem var bara sími. Framleiðendur voru búnir að prjóna allskonar möguleika inn í farsímana þannig að símahlutverkið var bara hliðarafurð. Í bræði minni ákvað ég að skrifa félaga Nokia í Finnlandi og skamma hann hressilega. Ég settist niður við tölvuna og skrifaði bréf þar sem ég gerði viðtakanda grein fyrir því, að ég vildi að Nokia framleiddi einfalda síma fyrir einfalt fólk eins og mig. Ég vildi stóra takka og bjartan skjá sem sýndi þær tölur sem ég veldi hverju sinni. Auk þess benti ég honum Nokia á öldruðum fjölgaði stöðugt og að sjón dapraðist með árunum. Það er hægt að græða á þessu fólki, skrifaði ég, og taldi að þar með mundi ég ná að hjarta Nokia.
Ég fann álitlegt netfang í höfuðstöðvum Nokia og sendi bréf til Helsinki. Félagi Nokia svaraði að sjálfsögðu ekki þannig að ég sendi honum sama bréfið aftur og aftur þar til Helsinki fékk leið á mér. Ég fékk ágætt bréf þar sem mér var þakkaður áhuginn á Nokia og nú beið ég spenntur - og hef beðið í nokkur ár. Símarnir frá Nokia - og hinum - verða æ flóknari og flottari. Þeir eru líka hannaðir af kornungu fólki með arnarsjón. Svo allrar sanngirni sé gætt þá sagði kunningi minn mér frá því um daginn að loks væru komnir einfaldir símar frá fyrirtæki sem ég kann ekki deili á. Það þóttu mér góð tíðindi enda fer ég á stúfana eftir helgi í símaleit.
Sá sem sagði að einfaldleiki væri markmið nútímatækninnar hlýtur að hafa dottið á svelli. Notendaviðmót flestra tækja verður flóknara með hverju árinu sem líður enda fylgja þeim hnausþykkir bæklingar á nokkrum tungumálum.
Sjóndaprir og einfaldir allra landa! Stöndum saman og krefjumst breytinga!
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 18:40 | Facebook