Mannauðsstjórn og fræðsluhönnun...

Atvinnuauglýsingar geta verið fyndnar. Drepskemmtilegar. Oft fá fyrirtæki sérfræðinga til að annast ráðningu nýrra starfsmanna og það eru einmitt þessir sérfræðingar sem sjá um gamansemina. Venjulegt fólk býr ekki yfir þeim hæfileika að setja saman góða atvinnuauglýsingu.  Það leynist rithöfundur í sumum þessara sérfræðinga enda er þeim hæfileika á stundum beitt óspart.

Ég á það til  að lesa atvinnuauglýsingar en þess má geta að ég les líka smáauglýsingar og þá ekki síður raðauglýsingar, sem segja gömlum blaðamönnum á stundum hvert skal halda í leit að góðu efni.  Fyrir nokkrum árum tók ég eftir orðinu  „mannauðsstjórnun“  þegar það hóf innrás sína í atvinnuauglýsingarnar og steindrap starfsmannastjórann.

Innleiðing mannauðsstjórnar

Ekki er langt síðan auglýst var eftir „mannauðsráðgjafa til að vinna með stofnunum að innleiðingu mannauðsstjórnar á vinnustað. Um er að ræða mannauðsráðgjöf og fræðsluhönnun, sem miðar að því að efla störf, starfsumhverfi, starfsþróunarmöguleika og starfsánægju. Leitað er að drífandi einstaklingi sem hefur í senn fagþekkingu og starfsreynslu á sviði mannauðseflingar. Starfið er tengt sérstökum stuðningsaðgerðum við stofnanir og byggir framtíð þess á árangri.“  Þess má geta að gert er ráð fyrir að umsækjendur séu með menntun í mannauðsfræðum.

Fræðsluhönnun er snilld

Og hvað var nú fyndið við þennan texta? Ja, það er nú til dæmis sú snilld að búa til orðið „fræðsluhönnun“. Fljótt á litið má hugsa sér að fræðsluhönnun sé sá verknaður að skrifa og hanna kennsluefni, en hugur segir mér að verkefnið sé eitthvað annað.  „Mannauðsefling“?  Hvað í heiminum er það? Hugsanlega á nýi starfsmaðurinn að reyna að laga starfsanda í fyrirtækjum og stofnunum en ef hann beitir þessu orði í því sambandi verður honum ekki mikið ágengt. Meðaljóninn fær verk þegar einhver segir honum að nú sé lag að hnoða í fólk mannauðeflingu og fara svo í fræðsluhönnun eftir mat.

Það skal viðurkennt að ekki er nóg að auglýsa eftir einstaklingi með fullu viti og við sæmilega heilsu. Auðvitað þarf að telja upp verkefnin en það á ekki að gera að á uppskrúfaðan hátt. Menntun manna er ekki mæld í því hvað þeir eru duglegir að flækja einföld verk.  Fólk sem starfar á „mannauðssviði“ þarf að skilja og skynja þarfir og væntingar samstarfsmanna, geta talað skiljanlegt mál og eiga til þolinmæði í kílóavís.  Ef starfsmannahaldið sendir frá sér texta að hætti þess sem ritaði auglýsinguna, sem varð tilefni þessara orða, getur það bókað að það les ekki nokkur sála textann frá upphafi til enda.

Mannauðsefling

Auðvitað er gott að það hafi víðtæka starfsreynslu en ekkert endilega á „sviði mannauðseflingar“ enda er mér ekki alveg ljóst hvert sérfræðingurinn með rithöfundarneistann er að fara.  En hitt veit ég að andlegir jafningjar hans hafa sótt um starfið – og einhver þeirra er nú fyrir framan tölvuskjáinn sinn önnum kafinn við kafla um mannauðseflingu. Textinn verður án efa ræddur á nokkrum, löngum fundum og ef heppnin er með verður boðað til ráðstefnu þar sem mannauðsráðgjafinn situr sem fulltrúi – og jafnvel fundarstjóri.  Ef ráðstefnan heppnast verður til rit sem aldrei verður lesið.

Starfsmaður sem hefur málefni annarra starfsmanna á sinni könnu hefur nóg að gera. Góður einstaklingur á starfsmannasviði getur gert kraftaverk – en í öllum bænum dragið úr notkun orðsins „mannauðsstjórnun“  og hinum mannauðs.... og leyfið gamla  „starfsmannastjóranum“  að sjá dagsins ljós öðru hvoru. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband