Bert fólk og veitingastaðir
28.2.2011 | 22:50
Hvernig ber að heilla fólk og fá það til að heimsækja ákveðna veitingastaði? Netið skiptir vissulega máli en þegar ferðamaðurinn er kominn á hótelherbergi er fátt eins gott og að þar liggi bæklingur með öllum nauðsynlegum upplýsingum. Yfirleitt hefur ferðafólk nægan tíma og vill bera saman það sem er í boði.
Forsíðan sem kom, sá og sigraði
Ég naut þess um daginn að fara á þægilegt sveitahótel á Suðurlandi. Að hætti forvitins ferðamanns fór ég samviskusamlega í gegnum bæklinga, sem ég fann í herberginu. Þarna kenndi ýmissa grasa en bæklingurinn Dining out toppaði flest sem ég hef séð um dagana. Auglýsingasíðurnar voru ágætar en það var forsíðan sem kom, sá og sigraði.
Hvað er rétt að setja framan á bækling um veitingastaði? Flestir munu nefna mat og fallegt, rómantískt umhverfi. En sumir vilja vera öðruvísi og svo var um útgefanda umrædds bæklings. Hann varð sér úti um mynd af ungu pari. Á forsíðunni sést það nakið niður fyrir nafla í áköfum kossaleik. Ljóst hár stúlkunnar liðast niður líkama hennar, yfir brjóstin og hylur þau mátulega. Á hvítum borða fyrir neðan unga fólkið er rautt epli á hvítum disk. Myndin er ættuð úr myndabankanum Shutterstock en þar er að finna þúsundir og aftur þúsundir mynda sem hefðu betur hæft efni bæklingsins.
Forboðnir ávextir, Mjallhvít, Adam og Eva
Annars er það útaf fyrir sig merkilegt að fara í svona myndabanka en eyða ekki nokkrum krónum í að taka myndir af íslenskum mat. Nóg er til af frambærilegum ljósmyndurum á Íslandi - og þegar verið er að kynna til sögunnar íslenska veitingastaði er ekki galin hugmynd að sýna íslenskan mat.
Trúlega telur útgefandinn snilld sína koma fram í því að fá mynd af ungu fólki í keleríi en sleppa klassískri matarmynd. Hvernig honum datt í hug að mynda epli og skella því fyrir neðan krakkana er önnur saga og flóknari. Rétt hugsanlega hefur honum dottið í hug sagan um Mjallhvíti en svo getur líka verið að honum finnist epli góð. Má vera að hugsunin sé enn dýpri og hann hafi verið að daðra við forboðna ávexti, Adam og Evu.
----
Vel má vera að ég sé gamaldags og að það sé eðlilegt að hafa bert fólk framan á bæklingi um íslenska veitingastaði. Ef svo er, þá vil ég vera gamaldags. Telji útgefandinn að þetta sé eðlilegt, sniðugt og frumlegt er hann einfaldlega á öðru astralplani en ég.
Hvernig ætli útgefandinn hefði hannað bækling fyrir sólbaðsstofu eða sundlaug? Maður getur látið sér detta ýmislegt í hug en miðað við jafn saklaust efni og íslensk veitingahús, þá efast ég ekki um að það hefði sést meira af parinu og að dýptin í frumlegheitunum hefði verið ómælanleg.